Grindavík

Grindavík
Grindavík

miðvikudagur, 13. október 2010

Málefni fatlaðra

Eins og flestum ætti að vera kunnugt þá færast málefni og þjónusta við fatlaða alfarið yfir á sveitarfélögin um næstu áramót. Ákvörðun um að hefja endurskoðun á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga var tekin á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga sem haldinn var 16. febrúar 2007. Þegar í upphafi var ákveðið að einbeita sér að þjónustu við fatlaða og öldrunarmálum. Tilfærslunni er stjórnað sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Verkefnisstjórn skipuð fulltrúum beggja aðila stýrir verkefninu, fjallar um greiningu kostnaðarþátta, samningagerð og tímasetningar vegna yfirfærslunnar.

Markmið með yfirfærslunni er að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð verði samþætt á hendi eins aðila og að stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa og efla félagsþjónustu sveitarfélaga. Enn fremur er markmiðið að styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Lögð er áhersla á heildstæða yfirfærslu verkefna ásamt breytingu á tekjustofnum til að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaga. Unnið er út frá þeirri viðmiðun að á hverju þjónustusvæði verði að lágmarki um átta þúsund íbúar. Þjónusta innan svæðisins verði veitt af einstökum sveitarfélögum, byggðasamlagi eða öðru formlegu samstarfi sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að þjónustusvæði mótist með samkomulagi sveitarfélaga en að ríkið geti tekið ákvarðanir um mörk þeirra náist ekki samkomulag.(samband.is)

Eins og sést á dagsetningunni hér að ofan hafa sveitarfélögin haft drjúgan tíma til að undirbúa tilfærsluna en því miður þá er það ekki raunin hvað varðar sveitarfélögin hér Suðurnesjum.  Það var almennt viðhorf fólks hér á svæðinu að ekkert yrði af þessari yfirfærslu þar sem margir endar væru enn lausir. Það kom skýrt fram í máli Einars Njálssonsr fyrrum bæjarstjóra hér í bæ sem nú starfar í verkefnisstjórn um tilfærsluna á aðalfundi S.S.S.  í haust að af yfirfærslunni yrði nú um áramótin. Þannig að menn urðu að spýta í lófana og nú er unnið að þessum málum á fullu gasi hér syðra. Á fundi sem haldin var í Saltfisksetrinu í gær 12. okt. fyrir sveitarstjórnarfólk voru kynnt þau módel sem hugsanlega gætu hentað okkur hvað varðar þjónustusvæði og hvernig best væri að standa að þessu. Gott hljóð var í mannskapnum og voru allir á því að vinna hratt og örugglega að því að koma þessum málum í höfn fyrir áramót.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir starfi saman sem einn maður að þessu verkefni svo að þessi yfirfærsla gangi sem best fyrir sig. Það er fátt mikilvægara í okkar samfélagi en hlúa vel að okkar minnstu bræðrum og systrum og búa þeim sem bestar aðstæður í lífinu. Það er hlutverk okkar bæjarstjórnarmanna að sjá til þess að þjónustan skerðist ekki við þetta heldur verði jafnvel betri og vonandi gengur það eftir. Nánari upplýsingar um yfirfærsluna er að finna á sérstökum vef á heimasíðu félags- og tryggingarmálaráðuneytisins.
                                                                                                Páll Valur

Engin ummæli:

Skrifa ummæli