Grindavík

Grindavík
Grindavík

mánudagur, 11. október 2010

Bæjarmálafundur

Bæjarmálafundur var haldinn í kvöld í kaffistofunni hjá Þrótti og var vel mætt. Aðalumræðuefni þessara funda hafa verið komandi bæjarstjórnarfundir og svo þau mál sem hafa verið efst á baugi hverju sinni. Bæjarstjórnarfundinum sem vera átti næstkomandi miðvikudag hefur verið frestað um viku af tæknilegum ástæðum svo að dagskrá hans var þ.a.l. ekki tiltæk. Þess í stað ræddu menn og konur um daginn og veginn og voru umræður fjörugar enda Siggi Ágústar og Óli Sigurpáls báðir á staðnum. Þessir fundir munu verða mánaðarlega í vetur eins og undanfarin ár og leggst starfið vel í fólk.

Bæjarmálaspjall

Kæru Grindvíkingar og aðrir landsmenn

Þessi bloggsíða mun í framtíðinni verða okkar tengill við ykkur sem eruð þarna úti og viljið fylgjast með því sem er að gerast í bæjarmálunum í Grindavík. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í síðustu kosningum fengum við á baukinn frá kjósendum og kannski ekki að ósekju. Samfylkingin var í forustu í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili og eins og flestum er kunnugt þá gekk það nú ekki andskotalaust fyrir sig. Tíð meirihlutaskipti og allskyns önnur óáran duldu á okkur bæjarbúum og það væri að æra óstöðugan að ætla að fara að rifja það allt upp hér. Þess vegna sleppum við því en lítum heldur til framtíðarinnar sem þrátt fyrir hrakfarir okkar jafnaðarmanna hér í bæ er björt.

Það er skemmst frá því að segja að samstarfið í þeirri bæjarstjórn sem tók við í vor hefur farið vel af stað. Mikið samráð hefur verið allt frá byrjun og á meirhlutinn undir stjórn þeirra Bryndísar Gunnlaugs og Guðmundar Pálssonar lof skilið fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Minnihlutinn hefur fengið að vera með í ráðum í flestum málum og nægir að nefna bæjarstjóraráðninguna í sumar og einnig heldur meirihlutinn minnihlutanum upplýstum um öll stór mál sem eru í deiglunni.

Þar er trú okkar jafnaðarmanna að framtíð okkar Grindvíkinga sé björt og þetta sveitarfélag er ríkt af mannauði, auðlindum og ekki síst tækifærum til uppbyggingar. Samt höfum við ekki farið varhluta af því ástandi sem á landinu hefur ríkt síðustu tvö ár og það er ljóst að til niðurskurðar þarf að koma hér eins og annars staðar til þess að rétta stöðu bæjarsjóðs. Það verður eingöngu gert með góðu samkomulagi allra í bæjarstjórn, forstöðumanna stofnanna og ekki síst bæjarbúa sjálfra. Sú vinna sem framundan er við fjárlagagerð verður ekki sársaukalaus og ljóst að draga verður saman seglin í rekstri bæjarins til þess hann verði rekinn á sléttu eins og lög gera ráð fyrir.

Grindvíkingar hafa marga fjöruna sopið og það er ekki nokkur efi í okkar huga að íbúar taki þessu öllu af æðruleysi og setji málefni og markmið ofar eigin hag, öll él styttir upp um síðir og jafnvægi á eftir að nást í þjóðfélaginu aftur. Þetta er bara spurning um að standa saman hvar sem að í flokk við sitjum og við eigum að láta alla flokkadrætti lönd og leið.
                                           
 Lifið heil. Jafnaðarmenn í Grindavík