Grindavík

Grindavík
Grindavík

miðvikudagur, 12. janúar 2011

Nýárskveðja

Jæja kæru lesendur þá er árið 2010 liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka og er ekki seinna vænna en að óska þeim sem álpast inn á þessa síðu gleðilegs og farsæls komandi árs með þökk fyrir það gamla. Það er skemmst frá því að segja að ekkert hefur verið skrifað hér inn á síðuna í langan tíma og kemur það til af mörgu. Bæði hefur umsjónarmaður síðunnar verið afskaplega upptekinn bæði við nám og störf þó að það sé nú frekar léleg afsökun. Eins má telja að ekki hafa fleiri félagar sýnt því neinn sérstakan áhuga að skrifa hér inn á síðuna og hefur þetta því verið frekar rýrt í roðinu allt saman. En það er eins með þetta eins og öll manna verk að það verður að vera brennandi áhugi á viðfangsefninu svo að það gangi þokkalega upp. Hann hefur kannski ekki verið til staðar en vonandi verður einhver breyting á og uppfærsla eigi sér oftar stað.

Það er af bæjarmálum að frétta að samstarf allra flokka gekk mjög vel á haustmánuðum þar sem tekist var á við fjárhagsáætlunargerð og málefni fatlaðra og eldri borgara. Það er kunnara en frá þurfi að segja að til töluverðs niðurskurðar þurfti að koma og sýndist sitt hverjum í þeim efnum. Því miður er það staðreynd að töluverður halli var kominn á bæjarsjóð eftir hin ýmsu ævintýri undanfarinna ára og ljóst að draga verður saman seglin í einhvern tíma. Það er von mín og eflaust annara að þessi niðurskurður komi ekki til með að hafa mikil áhrif á íbúa bæjarins þó að ljóst sé að hann komi til með að gera það að einhverju leyti. Við verðum að takast á við þennan vanda öll í sameiningu og vera þakklát fyrir það sem við þó höfum og vona að framtíðin beri í sér betri tíð með blóm í haga.

                                                                                                      Páll Valur

Engin ummæli:

Skrifa ummæli