Grindavík

Grindavík
Grindavík

miðvikudagur, 20. október 2010

Bæjarstjórnarfundur nr. 400

Fjögurhundraðasti bæjarstjórnarfundurinn fór fram í dag og gekk vel eins og flestir fundir þessarar bæjarstjórnar. Þeir félagar Páll Gíslason og Hilmar Helgason varamenn Framsóknar sátu sinn fyrsta bæjarstjórnarfund í dag og er ástæða til að óska þeim til hamingju með það. Helstu málin á dagskrá voru um yfirfærsluna á málefnum fatlaðra, nýjar fjármálareglur og svo skipulagsmál og var eftirfarandi tillaga varðandi málefni fatlaðra samþykkt samhljóða:

"Með vísan til tillögu verkefnisstjórnar um flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga á Suðurnesjum og kynningarfund bæjarstjórna og félagsmálanefnda sem haldinn var í Saltfisksetrinu í Grindavík þann 12. október síðastliðinn, samþykkir bæjarstjórn Grindavíkurbæjar að Suðurnes verði eitt þjónustusvæði fyrir þjónustu við fatlað fólk.
Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að samstarfið muni byggja á dreifðri þjónustu í samræmi við fyrirliggjandi samningsdrög um Sameiginlegt þjónustusvæði Suðurnesja um þjónustu við fatlaða, byggt á sama grunni og þjónustusvæði á Suðurlandi.
Bæjarstjóra er falið að vinna málið áfram í samstarfi við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og undirrita samninginn með fyrirvara um endanlegt samþykki bæjarstjórnar.
Á grunni ofangreinds samnings um þjónustusvæði þarf að vinna þjónustusamning milli sveitarfélaganna fimm um rekstur sameiginlegra verkefna þjónustusvæðisins og umsýslu rekstrarsjóðs. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar samþykkir að sú þjónusta verði vistuð í eitt ár til reynslu hjá Reykjanesbæ".

Það var vilji bæjarstjórnar Grindavíkur að láta S.S.S. sjá um rekstur sameiginlegra verkefna þjónustusvæðisins og umsýslu rekstrarsjóðs en ekki náðist samstaða innan sambandsins um þá tillögu. Þess vegna var ákveðið hafa þetta eins og kemur fram í tillögunni að ofan. Það er okkur mikið keppkefli að styrkja samband okkar við hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og lítum við bjartsýnum augum á samstarfið framundan.

Eins má nefna að lögð var fram skýrsla samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál, Fjármálareglur fyrir sveitarfélög og samráð um efnahagsmál. Í skýrslunni er lagt til að lögfestar verði tvær fjármálareglur. Annars vegar Jafnvægisregla rekstrar og hinsvegar Skuldaregla. Þetta eru mjög athyglisverðar reglur sem koma til með að veita sveitarfélögum meira aðhald í rekstrinum og fá þau til að fara varlega með fjármuni sína. Þeir sem vilja kynna sér þessar reglur geta gert það með því að klikka á eftirfarandi link: http://www.samband.is/media/landsthing-2010/skyrsla_fjarmalareglur_samrad.pdf

Eins má sjá dagskrá og niðurstöður frá bæjarstjórnarfundinum hér: http://grindavik.is/v/6335
                                                                                                         
                                                                                                 Kveðja Páll Valur

Engin ummæli:

Skrifa ummæli